Tag Archives: blautger

Horfnir Humlar

Upprunalega finnst uppskriftin hér:

Allar þakkir fá strákarnir í The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum en uppskriftin er þeirra.

Í töflunni hér að neðan virðist sem að humlar eigi að fara út í þegar 20mín og 0 mín eru eftir af suðu, en það á við um whirlpool tíma eins og kemur fram í facebook póstinum.

[beerxml recipe=http://brew.virtual-guy.com/wp-content/uploads/HorfnirHumlar.xml]

JohnnyB Special

Herra Jón Halldór er sérstakur aðdáandi ákveðins bjórklúbbs og fær fyrir vikið bjór nefndan eftir sér. Hann lét út úr sér einhverntíman að sér þætti Stella Artois og Einstök White Ale góðir bjórar og þar sem ég er ekki aðdáandi Stellu þá ákvað ég að skella í Einstök tribute bjór og nefna eftir Jóni, úr varð JohnnyB Special ( Herra JHB á íslensku ).

40L batch var skipt í tvær tunnur, önnur fékk MJ M21 Belgian Wit þurrger frá Mangrove Jack’s en hin fékk Belgian Wit blautger frá Wyeast.

Þurrgerið kláraði sig við c.a. 23°C á viku og endaði í c.a. 4.9% sem er undir áætluðu en blautgerið kláraði sig í 5.3% sem er alveg á pari við það sem uppskriftin segir til um. Báðir eru ljómandi góðir eftir fyrstu smökkun.

Blautgerið felldi aldrei krausen froðuna sem var enn til staðar rúmlega 2 vikum eftir framleiðsludag. FG var engu að síður búið að vera stöðugt í marga daga og því ljóst að gerjun var lokið.

Uppfært:
Blautgerið er klárlega með betri bjór en þurrgerið en hvort tveggja er samt ljómandi gott. Nú þegar bjórinn er búinn að vera á kút í svolítinn tíma eru menn farnir að tala um hvað hann sé tær, sé jafnvel bara á pari við lager bjóra (þurrgers bjórinn). Það gæti orsakast af Whirfloc töflu sem fékk að fljóta með í.

Næst verður þessi búinn til með talsvert mikið minna magni af kóreander fræjum.

[beerxml recipe=http://brew.virtual-guy.com/wp-content/uploads/JohnnyBSpecial.xml]

Leifur Hnakki

Þegar ætlunin er að bjóða fólki upp á bjór í heimabæ hnakkans á Selfossi þá er ekkert annað í boði en að bjóða upp á hressandi Blonde, nánar tiltekið nokkurkonar Leffe klón og þá er aðeins í boði að bjórinn heiti Leifur Hnakki.

Styrian Goldings voru reyndar ekki til hjá brew.is að þessu sinni en Hrafnkell deyr ekki ráðalaus þegar maður kemur til hans og var snöggur að stinga upp á East Kent Goldings í staðin. Við ákváðum líka að breyta til í gerinu og fórum soldið villta leið, tókum “bland í poka” ger frá White Labs sem nefnist WLP575.

Starterinn fyrir þetta ger fór frekar illa, það freyddi all svakalega og allt út um allt, á tímabili hélt ég jafnvel að við ættum ekki nóg ger fyrir 40L en það virðist hafa bjargast.

Þessi hefur ekki verið smakkaður enn þegar þetta er ritað en höfund hlakkar mikið til að smakka hann.

Bruggdagur: 07.03.2016

[beerxml recipe=http://brew.virtual-guy.com/wp-content/uploads/LeifurHnakki.xml]

Herra Bjórdagur

Þessi heitir reyndar á frummálinu “Hop Fiction” og kemur frá brugghundunum í Skotlandi. Þar sem að bókin er nokkuð opin hvað varðar tímasetningar og magn þá notaði ég uppskriftina frá þeim sem grunn að þessum bjór og leyfi ég mér því að gefa honum nýtt nafn sem hann dregur af bjórdeginum mikla sem jafnframt var bruggdagurinn.

Ég ákvað að nota tækifærið fyrst brew.is var að bjóða upp á blautger að slá til og prófa eitthvað annað en US-05, skellti mér því á “San Diego Super” (Turbo jäst?)  sem er WLP090. Gerði ekki starter þar sem bjórinn er nokkuð léttur (1.049) og gerið mjög nýtt. Kom á daginn að þetta var bara alveg ljómandi fín hugmynd, gerið svínvirkaði og kláraði sig af á innan við viku.

Notaði tækifærið og prófaði að tengja STC-1000 boxið sem ég smíðaði fyrir nokkru síðan og gerjaði þennan við 19°C í viku og setti svo niður í 14°C til að þurrhumla í rúma viku.

Þessi er alveg virkilega skemmtilegur og ég á eftir að njóta þess að drekka hann í góðra vina hóp í sumarbústað og heitum potti eftir hálfan mánuð.

Bruggdagur: 01.03.2016

[beerxml recipe=http://brew.virtual-guy.com/wp-content/uploads/HerraBjordagur.xml]

Herra Hafrafölur

Hér er smá tilraunastarfsemi í gangi. Ég átti rúm 10kg afgangs af Pale Ale malti og langaði að prófa Simcoe/Amarillo samsetningu af humlum. Mig langaði samt ekki alveg að hafa þetta bara single malt svo að ég bætti við 400g af haframjöli á móti 10.6kg af Pale Ale til þess eins að sjá hvað þetta myndi gera, á að hafa áhrif á haus en nánast ekkert annað. Tímdi ekki að nota mikið af Amarillo/Simcoe í bittering þar sem þetta eru dýrir humlar svo ég notaði afganga sem ég átti í frysti, Galaxy og Magnum. Notaði bara það sem ég átti til og vann svolítið út frá því.

Mig langaði að gera meira en bara prófa haframjölið og humlana, mig langaði líka að sjá hvað ger gerir fyrir bjórinn svo ég tók smá WLP500 sem ég þvoði af belganum mínum og notaði í aðra 20L tunnuna en notaði bara venjulegt US-05 í hina.

Þetta er gert í HERMS græjunum og það er lítið sem getur klikkað.

Útkoman var alveg virkilega skemmtileg og var bjórinn með belgíska gerinu mjög skemmtilegur, greinilegur karakter frá gerinu, krydd og skemmtilegheit. US-05 bjórinn var bara ósköp venjulegur IPA, ágætis bjór en gaf ekkert sérstakt af sér.

Bruggdagur: 14.01.2016

[beerxml recipe=http://brew.virtual-guy.com/wp-content/uploads/HerraHafrafolur.xml]

Herra Belgur

Herra Belgur er mín fyrsta tilraun við blautger og var starterinn gerður aðeins sólarhring fyrir bruggdag, meskjaður úr 420g pale malti og gerjaður í 2ja lítra pastakrukku úr IKEA, engin segulhræra eða kolba til aðstoðar.

Þessi fór ágætlega af stað, first runnings var um 18 brix, var með pre-boil volume upp á 25L og að því er virtist 15 brix virt. Bætti við sýrópinu og sá tölu upp á 18 brix og allt leit svona líka ljómandi vel út.

Sauð virtinn á svölunum þrátt fyrir kalt veður en ætlunin var að nota “no chill” aðferðina svo þetta hentaði ágætlega. Þarf bara að muna næst að ef ég ætla að hafa 2 element í gangi þá er vissara að hafa að minnsta kosti 16A öryggi á tenglinum.

Mælingar virðast hafa farið frekar illa, ég veit ekki hvað fór úrskeiðis en post boil sýndi mælirinn hjá mér aðeins 15 brix, sem er 3 heilum lægra en pre-boil á að vera og þar sem sykurinn gufar ekki upp þá er nokkuð ljóst að mælingarnar voru ekki réttar. Leiðrétti þetta með því að bæta 410g af hvítum sykri útí, enda í 18 brix og nokkuð ósáttur.

Heildarmagn endaði í um 22L eftir gerjun, líklega hefur suðan á svölunum haft eitthvað um þetta að segja þar sem uppgufunin er venjulega mun meiri en auk þess fleytti ég ekki ofan af starternum og því 2L af vondum bjór aukalega með.

Þetta hljómar allt eins og bjórinn hafi farið illa og ekki verið góður en það merkilega er að þetta er bara einn af þeim betri sem ég hef fengið. Virkilega skemmtilegur karakter úr gerinu (gerjað við 23-24°C til að byrja með en hitinn í geymslu lækkaði allt niður í 17°C í lokin) og almennt ljómandi góður bjór.

Bruggdagur: 28.12.2015

[beerxml recipe=http://brew.virtual-guy.com/wp-content/uploads/HerraBelgur.xml]